Ný stjórnarskrá & hlutverk forsetans

Þessa dagana er mikil gagnrýni á forseta Íslands fyrir að taka sæti í ráði í Indlandi.  Bent á að utanríkisráðuneytið fari með samskipti landsins við útlönd og vissulega er mikið til í því.  En er ekki einmitt hlutverki forsetans sem fulltrúa landsins hampað á tyllidögum?

Vandamálið er auðvitað, eins og margir hafa bent á, skortur á almennilegri skilgreiningu á hlutverki forsetans.  Gömul stjórnarskrá Dana, þar sem konungur var landlægur, en hlutverk hans var að þróast úr einvaldi í ekki neitt, var staðfærð að íslenskum aðstæðum, þ.e.a.s. konungur fékk að fjúka fyrir forseta og neitunarvald varð að málskotsrétti (sem menn eru m.a.s. óvissir um hvort gildi).

Á sama tíma búum við við algjöra samþættingu tveggja grundvallarþátta valds á Íslandi.  Löggjafar- og framkvæmdavald er nefnilega hvorutveggja á hendi Alþingis.  Ríkisstjórnin, sem í orði kveðnu á að hafa framkvæmdavald í umboði forseta Íslands, er skipað af meirihluti Alþingis og hefur því bæði rétt, sem meirihluti Alþingis, til að setja lög OG sem ríkisstjórn, vald til að framkvæma þau.

Ég legg til eftirfarandi skipun á þessum málum:

  1.  Forseti Íslands er kjörinn á sama hátt og nú er, nema hann má vera pólitískur, en þarf ekki að vera það.  Hann má þó ekki eiga sæti á Alþingi.
  2. Alþingi er kjörið á sama hátt og nú.
  3. Forseti skipar ríkisstjórn. Ráðherrar mega ekki vera þingmenn.  Forseti er jafnframt forsætisráðherra og því höfuð ríkisstjórnarinnar.  Hér er kominn aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds.
  4. Alþingi getur, með auknum meirihluta, lýst yfir vantrausti á ríkisstjórn (en ekki forseta, þar sem hann er þjóðkjörinn).  Ef slík tillaga er samþykkt getur forseti annað hvort skipað nýja ríkisstjórn, sem sátt er um, eða vísað málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.
  5. Forseti þarf að staðfesta lög með undirskrift sinni svo þau taki gildi.  Ef hann synjar lögum um staðfestingu er það val þingsins hvort það kjósi að bera það undir þjóðaratkvæði, hætta við málið eða breyta frumvarpinu þannig að sátt sé um það.  Þannig er komið í veg fyrir að einn hópur geti keyrt mál í gegn sem lög, þrátt fyrir andstöðu.
  6. Dómarar eru skipaðir af dómsmálaráðherra, eins og nú er, en skipun þeirra þarf að staðfesta af Alþingi. Þetta tryggir að dómarar (dómsvald) þurfi stuðning bæði löggjafa- og framkvæmdavalds.  Ekki fullkomið, en skárra en að þeir eigi allt sitt undir framkvæmdavaldinu, eins og nú er.

Hvað finnst mönnum? Og já, til aðila sem telja sig sjá hliðstæðu í ofangreindu við skipun annars staðar - þetta hefur verið notað víða og það er jú sama hvaðan gott kemur, ekki satt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristófer Sigurðsson

Jahh, hvað með hugtakið "stjórnarfrumvarp"?  Ríkisstjórnin ræðir eitthvað mál, gerir uppkast að lögum og leggur það fyrir þingið sem "stjórnarfrumvarp".  Öll stjórnarfrumvörp eru samþykkt, enda hefur ríkisstjórnin meirihluta á þingi.  Þannig er í raun búið að fela framkvæmdavaldinu löggjafarvald beint.  Þingið er bara stimpill fyrir þá.

Kristófer Sigurðsson, 31.1.2007 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband