Grasa"læknir"

" Grasalæknirinn Ásthildur Einarsdóttir, eða Skutlumamma..."

Burtséð frá því hversu góð þessi kona er á mótorhjóli set ég stórt spurningamerki við þetta.  Í 22. grein læknalaga (53/198) kemur skýrt fram að það kallist skottulækningar "er sá sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögum þessum býðst til þess að taka sjúklinga til lækninga, gerir sér lækningar að atvinnu, auglýsir sig eða kallar sig lækni, ráðleggur mönnum og afhendir þeim lyf sem lyfsalar mega einir selja."

Í sömu grein er sagt afdráttarlaust að skottulækningar séu bannaðar hér á landi.

Einhverjir myndu segja að grasalæknar séu ekki að kalla sig lækna, heldur sé þetta rótgróið íslenskt orð yfir kuklara þessa, en skýrsla, unnin fyrir heilbrigðismálaráðherra 2002-2004, um græðara (fólk sem veitir heilsutengda þjónustu byggða á kenningum og reynslu en ekki vísindum), hefur þetta að segja um það mál: "Strangt til tekið virðist starfsemi græðara oft vera á gráu svæði sé litið til 1. gr. læknalaga um rétt til að kalla sig lækni og sömuleiðis V. kafla laganna um skottulækningar. Gildir það einkum um notkun orðanna læknir og lækningar, sbr. grasalækningar, smáskammtalækningar, náttúrulækningar o.fl. sem samkvæmt laganna bókstaf er óheimil."

Lög um græðara (34/2005) passa sig vel á að nota aldrei orðin læknir eða lækningar og undirstrika þar með að þetta fólk tengist læknum ekki - og er ekki heilbrigðisstarfsfólk (það kemur rækilega fram í umræddum lögum). 

Skrýtið af Mogga að nota þetta heiti yfir þennan einstakling.  Í besta falli smávægileg yfirsjón sem engu skiptir, í versta falli dulbúin auglýsing, til þess fallin að auka tiltrú og traust manna á þjónustu þessa einstaklings með því að gefa í skyn tengsl við lækna eða aðrar heilbrigðisstéttir.

Hlekkir:

Læknalög:  http://www.althingi.is/lagas/nuna/1988053.html
Skýrsla heilbrigðisráðherra um græðara: http://www.althingi.is/altext/131/s/0731.html
Lög um græðara: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2005034.html


mbl.is „Konur eru fyrirmyndar bifhjólaökumenn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn og embættið

Það þarf klárlega að skilgreina embætti forsetans almennilega og ekki sem þykjustuembætti.  Bendi á færslu mína síðan áðan: Ný stjórnarskrá & hlutverk forsetans.
mbl.is Embættið og persónan eitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný stjórnarskrá & hlutverk forsetans

Þessa dagana er mikil gagnrýni á forseta Íslands fyrir að taka sæti í ráði í Indlandi.  Bent á að utanríkisráðuneytið fari með samskipti landsins við útlönd og vissulega er mikið til í því.  En er ekki einmitt hlutverki forsetans sem fulltrúa landsins hampað á tyllidögum?

Vandamálið er auðvitað, eins og margir hafa bent á, skortur á almennilegri skilgreiningu á hlutverki forsetans.  Gömul stjórnarskrá Dana, þar sem konungur var landlægur, en hlutverk hans var að þróast úr einvaldi í ekki neitt, var staðfærð að íslenskum aðstæðum, þ.e.a.s. konungur fékk að fjúka fyrir forseta og neitunarvald varð að málskotsrétti (sem menn eru m.a.s. óvissir um hvort gildi).

Á sama tíma búum við við algjöra samþættingu tveggja grundvallarþátta valds á Íslandi.  Löggjafar- og framkvæmdavald er nefnilega hvorutveggja á hendi Alþingis.  Ríkisstjórnin, sem í orði kveðnu á að hafa framkvæmdavald í umboði forseta Íslands, er skipað af meirihluti Alþingis og hefur því bæði rétt, sem meirihluti Alþingis, til að setja lög OG sem ríkisstjórn, vald til að framkvæma þau.

Ég legg til eftirfarandi skipun á þessum málum:

  1.  Forseti Íslands er kjörinn á sama hátt og nú er, nema hann má vera pólitískur, en þarf ekki að vera það.  Hann má þó ekki eiga sæti á Alþingi.
  2. Alþingi er kjörið á sama hátt og nú.
  3. Forseti skipar ríkisstjórn. Ráðherrar mega ekki vera þingmenn.  Forseti er jafnframt forsætisráðherra og því höfuð ríkisstjórnarinnar.  Hér er kominn aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds.
  4. Alþingi getur, með auknum meirihluta, lýst yfir vantrausti á ríkisstjórn (en ekki forseta, þar sem hann er þjóðkjörinn).  Ef slík tillaga er samþykkt getur forseti annað hvort skipað nýja ríkisstjórn, sem sátt er um, eða vísað málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.
  5. Forseti þarf að staðfesta lög með undirskrift sinni svo þau taki gildi.  Ef hann synjar lögum um staðfestingu er það val þingsins hvort það kjósi að bera það undir þjóðaratkvæði, hætta við málið eða breyta frumvarpinu þannig að sátt sé um það.  Þannig er komið í veg fyrir að einn hópur geti keyrt mál í gegn sem lög, þrátt fyrir andstöðu.
  6. Dómarar eru skipaðir af dómsmálaráðherra, eins og nú er, en skipun þeirra þarf að staðfesta af Alþingi. Þetta tryggir að dómarar (dómsvald) þurfi stuðning bæði löggjafa- og framkvæmdavalds.  Ekki fullkomið, en skárra en að þeir eigi allt sitt undir framkvæmdavaldinu, eins og nú er.

Hvað finnst mönnum? Og já, til aðila sem telja sig sjá hliðstæðu í ofangreindu við skipun annars staðar - þetta hefur verið notað víða og það er jú sama hvaðan gott kemur, ekki satt?


Læknir meiðist við að reyna að stöðva slagsmál á slysadeild

Yfirlæknir slysadeildar Landspítala - Háskólasjúkrahúss, Ófeigur Þorgeirsson, hefur nú í nokkurn tíma kvartað sáran yfir þeiri ofbeldisöldu sem er að ganga yfir landann.  Hann hefur, réttilega, bent á að það þurfi eitthvað að gera í þessum málum.  Nú er þetta orðið svo alvarlegt að starfsfólk slysadeildar verður fyrir áverkum af völdum ofbeldis við störf sín!

Hvers konar þjóðfélag getur ekki tryggt heilbrigðisstarfsfólki vernd gegn ofbeldi sjúklinga sinna?  Ef við ætlum líka að fara að ræða um þau mál; í hvers konar þjóðfélagi sleppur fólk létt með árásir á lögreglumenn?  Samfélag sem sættir sig við að lögreglumönnum sé jafnvel það ógnað að það hafi áhrif á störf þeirra?  Sem betur fer eiga ný lögreglulög að tryggja lögreglumönnum betri vernd.

Aftur að heilbrigðisstarfsfólkinu.  Það er einn lögreglumaður á slysó á nóttinni um helgar - ég hugsa að það sé alveg klárt mál að það þurfi að fjölga þeim, eða a.m.k. einhverskonar öryggisvörðum. 

Uppfærsla: Ég finn að vísu ekki þessi nýju ákvæði í lögreglulögum eða hegningarlögum, þar sem brot gegn valdstjórninni eru.  Við leitina sá ég samt að miklar refsiheimildir eru í lögum fyrir að hindra störf lögreglu, svo og hótanir og ofbeldi gegn þeim.  Tveggja ára fangelsi fyrir hindranir, 6 ár ef ofbeldi eða hótanir, en 8 ár ef viðkomandi er "aðalmaður" í hópsöfnuði gegn lögreglunni.  Áhugavert að það virðist ekki vera réttarhefð fyrir því að nota þessar heimildir.  Samkvæmt vefsíðu Landsambands lögreglumanna ætlar dómsmálaráðherra að breyta hegningarlögum á yfirstandandi þingi.


mbl.is Læknir meiddist þegar hann reyndi að stöðva slagsmál á slysadeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kommúnísku styrkjakerfi haldið áfram

Dauðakippir framsóknarflokksins eru orðnir áberandi þessa dagana.  Þeir tryggja pólitíska arfleifð sína með því að skilja eftir smávegis "glaðning" fyrir komandi kynslóðir stjórnmálamanna og skattgreiðenda.  Til ársins 2014 er afkoma óskastéttar framsóknarmanna, sauðfjárbænda, tryggð.  Skattgreiðendur greiða á næstu sjö árum alls 16 milljarða í beina styrki til greinarinnar.  Í þessu felst meðal annars að bændur, gagnstætt öðrum sjálfstæðum atvinnurekendum, fá lífeyri (styrki), þrátt fyrir að hafa aldrei greitt í lífeyrissjóð.  Ríkið býður nefnilega öllum sauðfjárbændum sem eru orðnir 64 ára að hætta í búskap án þess að missa styrkina...

Er ekki kominn tími á að koma bændum inn í nútíðina?  Ef þeir missa þessa styrki munu þeir finna leiðir til aðstunda landbúnað á hagkvæmari hátt.  Eins og er enginn hvati fyrir landbúnað til þess að þróast og styrkjast.  Styrkjum landbúnað - burt með styrkina!


mbl.is Nýr sauðfjársamningur undirritaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja færa ósjálfstæðum unglingum völd

"Tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Hlynur Hallsson, og Kolbrún Halldórsdóttir, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa að kosningaaldur verði 16 ár í stað 18 ára."

Í fyrsta lagi vil ég reyndar hrósa Vinstri-grænum.  Ég hef aldrei séð þau koma með neitt annað en væl yfir því sem aðrir eru að gera.  Nú eru þau að gera eitthvað sjálf.

Að því sögðu vil ég aðeins tjá mig efnislega um tillöguna.  Mér finnst hún alveg út úr kortinu.  Satt að segja finnast mér 17 ára unglingar ekki nógu þroskaðir til að keyra bíl, hvað þá til þess að kjósa.  Fólki er ekki treyst fyrir fjárræði á eigin eignum á þessum aldri - en á nú að fara að treysta þeim fyrir þeirri ákvörðun hverjir fara með ríkisfjármálin?  Ég hugsa að það megi alveg bíða í tvö ár.

Það hefur verið ákveðin stefna að færa fullorðinsaldurinn í 18 ára markið.  Þegar fólk verður 18 ára verður það lögráða, fjárráða, það má kjósa, gifta sig og fara inn á vínveitingastaði (ef reglur staðarins leyfa).  Ég legg til að skrefið verði stigið til fulls; ökuleyfisaldur færður í 18 ár og áfengiskaupaaldur sömuleiðis.


mbl.is Vilja lækka kosningaaldurinn í 16 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég sem hélt að Íran eða N-Kórea væri næst

Óttaleg óhemja er þessi ríkisstjórn Bandaríkjamanna.  Þeir sjá Al-Queda liða í hverju horni.  Talsmönnum þeirra ber reyndar ekki alveg saman um það hvort "árásin í gær hafa beinst gegn liðsmönnum íslamista eða al Qaeda liðum sem leynist á meðal þeirra".

Ég sé þetta alveg fyrir mér.  "Hvað segið þið strákar, eigum við ekki bara að segja að þessir heiðingjar séu Al-Queda eins og hinir?  Er það ekki bara þægilegast?".

Mér finnst undarlegt að bandaríska þingið, sem, eins og kunnugt er, er nú undir stjórn demókrata, skuli ekki gera athugasemdir við þetta.  Þeir eru kannski of uppteknir við að reyna að stöðva stríð við Íran.

Þetta minnir dálítið á Roosevelt og baráttu hans gegn "einangrunarsinnum" á þingi á seinni hluta 4. áratugs síðustu aldar.  Hann vildi óður og uppvægur fara í Þjóðverja og Japani, en þingið hélt aftur af honum.  Hann notaði þá aðra taktík, styrkti Breta fjárhagslega, sendi þeim hergögn og beitti sér á sama hátt gegn Japönum, þar til þeir bitu til baka með Pearl Harbor.  Sagan dæmdi Roosevelt í rétti, enda vann hann stríðið sitt.  Hvað ætli hún geri við Bush?


mbl.is Bandaríkjaher heldur áfram loftárásum á Sómalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugfloti Landhelgisgæslunnar stækkar

Þau stóru tímamót gerðust í gær, að Landhelgisgæslan fékk fjórðu þyrluna sína til landsins.  Það er mikið öryggi fyrir landsmenn að LHG skuli nú ráða yfir fjórum þyrlum, tveimur stórum og tveimur litlum.  Þetta mun líka þýða að öllu jöfnu að hægt verði að ræsa út tvær þyrlur í einu með litlum fyrirvara.

Ég mun hins vegar ekki vera sá fyrsti til þess að segja að þetta er of lítið og of seint.  Gæslan þyrfti að vera öflugri.  Hún þarf ný skip (ekki bara þetta eina sem er verið að smíða) og helst nokkrar þyrlur í viðbót.

Nú er borðleggjandi, að einhverntíman á næsta áratug verður flugeldasala til einstaklinga bönnuð.  Þetta mun kippa fótunum undan Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, sem hefur af óeigingirni séð um leit og björgun á Íslandi í um 80 ár.  Hvernig væri að færa þau verkefni undir Landhelgisgæsluna (a.m.k. sjópartinn), og taka björgunarskip og báta sem SL hefur í kringum landið undir LHG?

Með þessu myndi rekstur bátanna verða tryggður (miðað við að fjárframlög til LHG yrðu raunsæ) og bátakostur LHG myndi verða stærri, dreifðari og fjölbreyttari til að takast á við öll verkefni stofnunarinnar, ekki bara leit og björgun.  Einnig myndi þetta gefa aðgang að þjálfuðum og góðum mannskap um allt land til að manna bátana.

Umfang leitar og björgunar á landi eftir að flugeldasalan hættir verður klárlega að minnka frá því sem nú er, en með sterkum þyrluflota LHG ætti að vera hægt að hafa litlar sveitir víðsvegar um landið sem gætu síðan fengið liðsstyrk þegar þörf krefði.

Samstarf SL og LHG er þegar hafið að einhverju leyti, því að það þekkist núorðið að þyrlur LHG fari með björgunarmenn SL frá Reykjavík í útköll sem krefjast sérhæfingar og hraða, t.d. köfunarútköll og sérhæfð fjallabjörgunarútköll.  Þetta mætti stórauka og jafnvel hafa litla atvinnubjörgunarsveit á höfuðborgarsvæðinu sem hægt væri að beita um allt land, ef þörf krefði, björgunarsveitum á viðkomandi stöðum til aðstoðar.  Landbjörgunarsveitirnar á hverjum stað gætu verið hluti af slökkvi- eða lögregluliðum á hverjum stað - ef sjálfboðaliðaformið sem er í dag helst ekki.  Æskilegast væri þó auðvitað að hafa sama mannskap í þessu og í dag, enda er það að virka vel.


mbl.is Fjórða þyrla Landhelgisgæslunnar komin til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vill búa í fíkilheldum heimi?

"Ögmundur sagði að hæglega mætti snúa áðurnefndri auglýsingu við því það væru spilafíklarnir sem greiddu gróða Betsson sem aftur gerði sér sjúklega spilafíkn fólks að féþúfu."

Mikið óskaplega finnast mér Vinstri-grænir fyrirsjáanlegir.  Eins klárt og það er að Guðni Ágústsson mun standa með sauðkindinni munu VG menn vera á móti öllum breytingum og helst sem flestu öðru líka.

Bann á fjárhættuspilum er löngu úr sér gengið, svo og takmarkanir á sölu áfengis, bann við því að auglýsa löglegar vörur (áfengi og tóbak) og fleira.

Vissulega eru til fíklar í allt, en við getum ekki miðað allan heiminn sem við hin lifum í fyrir þá.  Því miður.  Ég vil ekki búa í fíkilheldum heimi þar sem allt er hvítt, kólesterólríkur matur þekkist ekki, heldur ekki sykrað gos, áfengi eða fjárhættuspil.  Ég er fullorðinn maður og vil að ríkisvaldið sýni mér þá virðingu að treysta mér fyrir eigin velferð.  Rétt meðferð við því að fíklar ánetjist einhverju er ekki að banna það sem fíkillinn ásælist og treysta því að vandamálið hverfi.  Við erum ekki að tala um lítil börn sem við einfaldlega fjarlægjum allar freistingar frá - hvort sem það eru brothættir hlutir eða sterk þvottaefni.


mbl.is Gera sér fíkn að féþúfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleiðingarnar ef Bandaríkin fara frá Írak

George W. Bush Bandaríkjaforseti mun flytja stefnuræðu sína...

Bush Bandaríkjaforseti hélt í nótt ræðu þar sem hann kallaði eftir "breiðari samstöðu meðal Bandaríkjanna gagnvart Írakshernaðaráætlun hans".  Bush varar  við afleiðingum ósigurs í Írak.   Ætli hann hafi verið að glugga í gamlar ræður úr Víetnamstríðinu, um hvað myndi gerast ef Víetnam færi undir stjórn kommúnista?

Hann ætti kannski að skoða sögubækur og skoða hvað gerðist í raun og veru þegar Víetnam fór undir stjórn kommúnista.  Ekki neitt.

Hitt er, að vafalaust yrði ósigur í Írak óþægilegur fyrir flesta.  Í fyrsta lagi myndi borgarastyrjöldin fara í alvöru stríð.  Í öðru lagi myndu Kúrdar trúlega stofna eigið ríki, Kúrdistan, eins og þeir hafa lengi viljað.  Ætli mismunandi fylkingar múslima myndu ekki murka lífið úr hvor öðrum, svo og kristnum á svæðinu.  Geri ráð fyrir að annað ríkið yrði leppríki Írans, en hitt væri óstöðug súpa milli þess og Kúrdistan.

Kúrdistan myndi trúlega styrkja aðskilnaðarsinna Kúrda í Tyrklandi, með það fyrir augum að hluti Tyrklands myndi fara undir Kúrdistan.  Vandræðalegt fyrir Bandaríkjamenn, sem undanfarinn áratug hafa hjálpað Tyrkjum að halda Kúrdunum niðri þeirra megin við landamærin í skiptum fyrir aðstöðu til að fljúga inn í Írak og vernda Kúrdana þar fyrir vonda, vonda Saddam...

Það sem þetta strandar allt á er sú staðreynd að síðan í lok 8. áratugar síðustu aldar hefur Saddam haldið þessu öllu saman á hörkunni.  Bandaríkjamenn hafa yfirleitt gert sér grein fyrir því og ekki viljað róta of mikið í súpunni.  Ætli það sé ekki þess vegna sem Bush eldri stoppaði árið 1992?  Sonur hans hefði kannski betur fengið ráð hjá þeim gamla. 


mbl.is Bush kallar eftir samstöðu varðandi hernaðarátökin í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband