Bandaríkjamenn og dómínó kenningin

Árið 1954, í byrjun kalda stríðsins, varð til í Bandaríkjunum svokölluð dómínó kenning.  Hún gekk í stuttu máli út á að ef eitt land yrði kommúnískt myndi það smita út frá sér, svipað og sýking í sári...nú, eða dómínókubbar sem detta og fella næsta.

Dómínókenningin hafði mjög mikil áhrif í bandarískum utanríkismálum, en þar ber helst að nefna Víetnamstríðið.  Einnig styrktu Bandaríkjamenn hægrimenn (lýðræðissinna eða fasista, skipti ekki máli) víðsvegar um heiminn, hélt einræðisherrum við völd sumstaðar og myrti þá annars staðar, byggt á þessari kenningu.

Nú, þegar við lítum til baka á kalda stríðið, sjáum við að "hættan" var kannski ekki eins mikil og menn héldu á sínum tíma.  Því skýtur það skökku við að afbrigði dómínó kenningarinnar sé við lýði í dag.

Ljóst var talið fyrir nokkrum vikum að Sómalía myndi falla undir yfirráð Íslamista, sem, eftir því sem ég best veit, nutu stuðnings meirihluta þjóðarinnar (þó sel ég það ekki dýrara en ég keypti það).  Trúir gamla góða Eisenhower og kenningunni hans eru Bandaríkjamenn farnir að henda sprengjum á Íslamista í Sómalíu.  Reyndar fylgir sögunni að þar sé um gamla fjandmenn úr Al-Queda að ræða.

Það er í raun dálítið gaman að fylgjast með Sómalíumálinu.  Í Víetnam styrktu Bandaríkjamenn S-Víetnama í baráttu sinni við N-Víetnamska kommúnista með peningum, vopnum og "hermálaráðgjöfum".  Á tímabili þvertóku þeir að vísu fyrir það, en þetta varð æ opnara hjá þeim þar til þeir enduðu á að senda landher inn.   Í Sómalíu dagsins í dag voru Íslamistar að taka þetta, en allt í einu komu Eþíópumenn inn með herlið og stefnan snérist um leið.  Ætli Bandaríkjamenn hafi eitthvað..."hvatt"...til þessa?  Undarlegt að nú þegar þetta virðist ekki alveg nóg til að klára dæmið skuli nokkrar bandarískar flugvélar vera staddar í nágrenninu og til í að varpa nokkrum sprengjum, enda sé Osama staddur þar þá stundina...

Er það bara ég, eða er ekki farið að bæra á því að allir sem eru eitthvað óþægilegir í augum Bandaríkjastjórnar eru orðnir Al-Queda liðar? 


mbl.is Bandaríkjamenn gerðu loftárás á meinta al-Qaeda-liða í Sómalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband