Bandaríkjamenn og dómínó kenningin

Árið 1954, í byrjun kalda stríðsins, varð til í Bandaríkjunum svokölluð dómínó kenning.  Hún gekk í stuttu máli út á að ef eitt land yrði kommúnískt myndi það smita út frá sér, svipað og sýking í sári...nú, eða dómínókubbar sem detta og fella næsta.

Dómínókenningin hafði mjög mikil áhrif í bandarískum utanríkismálum, en þar ber helst að nefna Víetnamstríðið.  Einnig styrktu Bandaríkjamenn hægrimenn (lýðræðissinna eða fasista, skipti ekki máli) víðsvegar um heiminn, hélt einræðisherrum við völd sumstaðar og myrti þá annars staðar, byggt á þessari kenningu.

Nú, þegar við lítum til baka á kalda stríðið, sjáum við að "hættan" var kannski ekki eins mikil og menn héldu á sínum tíma.  Því skýtur það skökku við að afbrigði dómínó kenningarinnar sé við lýði í dag.

Ljóst var talið fyrir nokkrum vikum að Sómalía myndi falla undir yfirráð Íslamista, sem, eftir því sem ég best veit, nutu stuðnings meirihluta þjóðarinnar (þó sel ég það ekki dýrara en ég keypti það).  Trúir gamla góða Eisenhower og kenningunni hans eru Bandaríkjamenn farnir að henda sprengjum á Íslamista í Sómalíu.  Reyndar fylgir sögunni að þar sé um gamla fjandmenn úr Al-Queda að ræða.

Það er í raun dálítið gaman að fylgjast með Sómalíumálinu.  Í Víetnam styrktu Bandaríkjamenn S-Víetnama í baráttu sinni við N-Víetnamska kommúnista með peningum, vopnum og "hermálaráðgjöfum".  Á tímabili þvertóku þeir að vísu fyrir það, en þetta varð æ opnara hjá þeim þar til þeir enduðu á að senda landher inn.   Í Sómalíu dagsins í dag voru Íslamistar að taka þetta, en allt í einu komu Eþíópumenn inn með herlið og stefnan snérist um leið.  Ætli Bandaríkjamenn hafi eitthvað..."hvatt"...til þessa?  Undarlegt að nú þegar þetta virðist ekki alveg nóg til að klára dæmið skuli nokkrar bandarískar flugvélar vera staddar í nágrenninu og til í að varpa nokkrum sprengjum, enda sé Osama staddur þar þá stundina...

Er það bara ég, eða er ekki farið að bæra á því að allir sem eru eitthvað óþægilegir í augum Bandaríkjastjórnar eru orðnir Al-Queda liðar? 


mbl.is Bandaríkjamenn gerðu loftárás á meinta al-Qaeda-liða í Sómalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaðan nælir sér í atkvæði

Það verður að segjast eins og er að stjórnarandstaðan spilaði alveg brilliant úr þessu.  Byrjuðu á að taka frekar léttvægt og sjálfsagt mál og snúa því í langt málþóf eins og um heill þjóðarinnar væri að ræða - gáfust síðan upp á dramatískan hátt eins og Spartverjarnir í gilinu forðum, þegar ljóst var að þeir myndu aldrei geta stöðvað þetta.  Þetta hefur verið vel auglýst og augljóslega aðalmálið í fréttum síðustu daga, hvernig andspyrnan ver alþýðuna gegn vonda veldinu (í þessu tilfelli klárlega Sjálfstæðisflokknum, sem er greinilega Satan sjálfur í augum þessa fólks) og eftir kosningar, ef þjóðin lofar, mun þetta víst verða leiðrétt!

Hitt er svo alveg ljóst, að þingið er bara stimpill fyrir ríkisstjórnina.  Mér finnst í raun stórundarlegt að stjórnarandstaðan mæti í þingið, þeir hafa ekkert þangað að gera sem þeir geta ekki gert í gegnum sjónvarpið heima hjá sér.  Á meðan framkvæmdavald og löggjafarvald er samsnúið eins og nú er mun þetta halda áfram.  Fyrir léttvæg mál eins og þetta, svo og alvarlegri.


mbl.is Frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. samþykkt á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okkar skoðun

Sá aðeins af fréttum Ríkissjónvarpsins í gær.  Meðal þess sem ég sá og vakti áhuga minn var frétt um nokkur austfirsk ungmenni sem gerðu kvikmynd um sína skoðun á virkjanamálum fjórðungsins.  Var víst ágætis mynd.  Að því er mér skyldist er skoðun þessara ungmenna sú, að ekki hafi verið rétt að ráðast í Kárahnjúkavirkjun, álver og allt sem þessu fylgir.

Nú hafa sumir, og þá aðallega sunnantil á landinu, haldið því fram að þessi skoðun sé almenn meðal landsmanna og muni verða til þess að skipt verði um landsfeður (foreldra?) í kosningunum í vor.  Í því ljósi þótti mér skondið að heyra þessa eindrengu mótmælendur virkjunarinnar halda því fram að það að hafa slíkar skoðanir þarna fyrir austan væri eins og að vera "hommi á togara".  Ef við fyrirgefum í eitt augnablik skort á pólitískri rétthugsun í þessu orðafæri er gaman að horfa í meininguna á því.  Þau eru meðal mjög fárra með þessa skoðun og vita af því.  Þess utan er auðvitað gott hjá þeim að gera þessa kvikmynd um skoðanir sínar - mun betri leið en margar, t.d. að hlekkja sig við vinnuvélar eða halda uppi tilgangslausu málþófi á Alþingi um málið.

Af þessu tilefni get ég ekki stillt mig um að tjá mig um þessi blessuðu virkjanamál.  Svona prívat og persónulega.  Í fyrsta lagi er ég utan af landi og ég veit hversu fábreytt atvinnulífið þar verður oft.  Tel ég mig þó heppinn með heimaslóðir, því að í kringum Ísafjörð hefur margvísleg menningarstarfsemi blómstrað þrátt fyrir að aðstæður hafi ekki alltaf verið sem bestar.  Hins vegar sé ég hvernig koma stórs álvers, virkjunar og slíks getur orðið lyftistöng fyrir allt samfélagið.  Með Kárahnjúkavirkjun, og sérstaklega álverinu sjálfu, kemur ógrynni fólks.  Sumt af því er erlent, stoppar bara stutt og eyðir mestöllum sínum tíma uppfrá í virkjuninni.  Sumt er hins vegar verkfræðingar, iðnaðarmenn, alls konar fólk og umfram allt fullt af fólki sem mun fara fram á fjölbreytta þjónustu í sínum nýju heimabæjum fyrir austan.  Það mun fara fram á kaffihús, kvikmyndahús, verslanir og skóla fyrir börnin sín.  Fleira fólk mun fara austur til þess að veita þessa þjónustu.  Ungir austfirðingar munu fá tækifæri til að sækja þessa þjónustu í heimabyggð.  Þurfa ekki að fara til Reykjavíkur til að sækja menntun.  Geta fengið störf við hæfi í eigin byggðalagi.  Draumur í dós.  Eftir því sem verslun og þjónusta mun byggjast upp fyrir þetta fólk mun svæðið líka verða meira aðlaðandi fyrir fólk og það mun streyma þangað og auðga mannlífið enn frekar.

Vissulega er slæmt að byggðalög treysti um of á eitthvað eitt og margir hafa bent á að hugsanlega ætti frekar að ýta undir ferðaþjónustu frekar en að horfa eingöngu á álið.  En ég spyr - er ekki hægt að ýta undir ferðaþjónustu líka, þó álverið sé þarna?  Það er nóg að sjá þó að eitt álver og ein smávirkjun sé þarna lengst uppi á hálendi.  Engin ástæða til að draga þetta niður þó að mönnum finnist að það eigi að ýta undir eitthvað fleira líka.

Ef einhver kæmi með ferðaþjónustuhugmynd sem veitti álíka mörgum og fjölbreyttum starfskröftum atvinnu á svæðinu eins og álverið fengi hann örugglega eins mikinn eða meiri stuðning stjórnvalda og álverið. 


Hugmynd að stefnumáli

Ég er með hugmynd að stefnumáli.  Ég hef reyndar lengi haft þessa hugmynd og mesta furða að hún skuli ekki hafa oltið úr mér áður.  Bjútíið við hugmyndina er helst það, að hægt væri að nota hana í hvort sem er, sveitarstjórnarkosningar (í Reykjavík) eða í Alþingiskosningar.  Svo hentar hún öllum flokkum (nema auðvitað Vinstri grænum, því þeir virðast helst vilja að við ferðumst um á hestvögnum).

Hugmyndin er að eyða umferðarljósum á stofnbrautum.  Það er hreinasta hneysa að á árinu 2007 skulu enn finnast umferðarljós á stofnbrautum höfuðborgar landsins.  Á hverjum einum og einasta degi, oft á dag, er allt stopp í bænum í 1-2 klst., að miklu leyti til vegna umferðarljósa.  Á hverjum gefnum tíma er alltaf einhver í röðinni stopp á ljósum einhversstaðar, og þar af leiðandi öll strollan á eftir honum.  Að leggja af stað eftir að það kemur grænt ljós og að ná upp hraða að næsta ljósi er stundum svo tímafrekt (fyrir marga bíla) að ekki allir ná að færast neitt þar til ljósið breytist á ný.

Ef umferðin er nógu mikil til að hringtorg dugi ekki þarf mislæg gatnamót!  Við skulum ekki líða það lengur að öll umferðin þurfi að bíða hreyfingarlaus í lengri tíma oft á dag! 


Könnun um traust á stjórnmálaleiðtogum

Ég setti rétt í þessu inn könnun hér til vinstri um traust gesta minna á stjórnmálaleiðtogum sem leiða flokkana til kosninga í vor.  Ég hefði getað sett þónokkur nöfn í viðbót, en ég ákvað að einskorða þetta við formenn flokkanna, annars yrði þetta hreinlega of mikið batterí.

Sjálfur held ég að Geir H. Haarde komi bestur úr þessu.  Þrátt fyrir óheppileg ummæli einu sinni hefur hann ekki klúðurslegan feril Jóns Sigurðssonar, sem er helst þekktur fyrir að hafa verið á spenanum áratugum saman og rísa síðan í risastóru úmfi af engu.  Geir hefur heldur ekki þrjóska pólitíska sjálfsmorðseðli Ingibjargar Sólrúnar, sem ég leyfi mér að kalla óvinsælasta stjórnmálamann á Íslandi í dag.  Steingrímur J. Sigfússon er skemmtilegur stjórnmálamaður, en hann er bara svo góður í að vera á móti að ég efast hreinlega um að Alþingi yrði eins án hans í stjórnarandstöðu.  Addi Kitta Gauja er svo dálítið spes úti á kantinum í stjórnmálum, innanbúðarátök í gangi, auk þess sem flokkurinn virðist hafa breyst úr hægriflokk sem studdi undir fiskveiðar og í einhverskonar hliðarútibú af vinstri-grænum (sem er að vísu á móti útlendingum).


Bílddælingar mótmæla

Bílddælskir (er það yfirleitt orð?) sjálfstæðismenn mótmæla harðlega ráðningu "útlendings" í stöðu hafnarvarðar við Bíldudalshöfn, að sögn Bæjarins besta á Ísafirði.

Umræddur útlendingur er að vísu ekki lengra að kominn en 200 km að norðan, en hann er Ísfirðingur.  BB vitnar beint í fundargerð bæjarstjórnar Vesturbyggðar, þar sem finna má bókun sem minnihlutinn (umræddir sjálfstæðismenn) lögðu fram.  Ég ætla að leyfa mér að birta þessa tilvitnun í heild sinni;

"D -lista mótmæla því harðlega að meirihluti Samstöðu í bæjarstjórn Vesturbyggðar skuli ráða hafnarvörð við Bíldudalshöfn sem ekki hefur þar lögheimili heldur er viðkomandi búsettur í Ísafjarðarbæ!!. Það er ekki alveg í samræmi við ummæli forseta bæjarstjórnar Úlfars Thoroddsen þegar hann mótmælti því harðlega að ráðinn var í starf aðst. yfirlögregluþjóns á Patreksfirði einn af þessum s.k. aðkomumönnum og útlendingum!!! búsettur í Ísafjarðabæ. Nú hins vegar þegar hentar er ráðinn í starf hafnarvarðar á Bíldudal einn af s.k.„aðkomumönnum og útlendingum“ forseta bæjarstjórnar þrátt fyrir að heimamenn með lögheimili í Vesturbyggð hafi sótt um. Ragnar Reykás hvað!!!!!!"

Einhver hefði hugsanlega vandað betur formlega bókun, svona til að líta betur út í augum komandi kynslóða - nú, eða þeirra sem lesa Bæjarins besta.

Slóð í frétt: http://www.bb.is/?PageID=141&NewsID=94056


Enn eitt stjórnmálabloggið

Nú er móðins að koma hingað, á Moggablogg, og láta ljós sitt skína um menn og málefni líðandi stundar.  Í fyrstu voru það víst bara meðaljónar, en þeir slógu í gegn, svo Jónar yfir meðallagi gengu einnig í málið og ber þar helst að nefna flokksbróður minn, stríðsmálaráðherrann sjálfan.

Þegar líður að kosningum fara þessi pólitísku meðaljónablogg upp í tölum eins og aldrei fyrr.  Hefðbundnir og semí-hefðbundnir fjölmiðlar (netmiðlar) vitna í þá og meðaljóninn tekur kast yfir nýfundnu mikilvægi sínu.  Menn eru löngu hættir að tala um sínar 15 sekúndur af frægð - nú er það manns eini linkur af frægð.  Endist þar til það kemur ný frétt á forsíðu...

Hvernig sem öllu þessu líður, þá bætist hér með enn ein gorkúlan við og vonandi verður henni vel tekið. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband