25.1.2007 | 11:15
Vilja færa ósjálfstæðum unglingum völd
"Tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Hlynur Hallsson, og Kolbrún Halldórsdóttir, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa að kosningaaldur verði 16 ár í stað 18 ára."
Í fyrsta lagi vil ég reyndar hrósa Vinstri-grænum. Ég hef aldrei séð þau koma með neitt annað en væl yfir því sem aðrir eru að gera. Nú eru þau að gera eitthvað sjálf.
Að því sögðu vil ég aðeins tjá mig efnislega um tillöguna. Mér finnst hún alveg út úr kortinu. Satt að segja finnast mér 17 ára unglingar ekki nógu þroskaðir til að keyra bíl, hvað þá til þess að kjósa. Fólki er ekki treyst fyrir fjárræði á eigin eignum á þessum aldri - en á nú að fara að treysta þeim fyrir þeirri ákvörðun hverjir fara með ríkisfjármálin? Ég hugsa að það megi alveg bíða í tvö ár.
Það hefur verið ákveðin stefna að færa fullorðinsaldurinn í 18 ára markið. Þegar fólk verður 18 ára verður það lögráða, fjárráða, það má kjósa, gifta sig og fara inn á vínveitingastaði (ef reglur staðarins leyfa). Ég legg til að skrefið verði stigið til fulls; ökuleyfisaldur færður í 18 ár og áfengiskaupaaldur sömuleiðis.
![]() |
Vilja lækka kosningaaldurinn í 16 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2007 | 11:05
Ég sem hélt að Íran eða N-Kórea væri næst
Óttaleg óhemja er þessi ríkisstjórn Bandaríkjamanna. Þeir sjá Al-Queda liða í hverju horni. Talsmönnum þeirra ber reyndar ekki alveg saman um það hvort "árásin í gær hafa beinst gegn liðsmönnum íslamista eða al Qaeda liðum sem leynist á meðal þeirra".
Ég sé þetta alveg fyrir mér. "Hvað segið þið strákar, eigum við ekki bara að segja að þessir heiðingjar séu Al-Queda eins og hinir? Er það ekki bara þægilegast?".
Mér finnst undarlegt að bandaríska þingið, sem, eins og kunnugt er, er nú undir stjórn demókrata, skuli ekki gera athugasemdir við þetta. Þeir eru kannski of uppteknir við að reyna að stöðva stríð við Íran.
Þetta minnir dálítið á Roosevelt og baráttu hans gegn "einangrunarsinnum" á þingi á seinni hluta 4. áratugs síðustu aldar. Hann vildi óður og uppvægur fara í Þjóðverja og Japani, en þingið hélt aftur af honum. Hann notaði þá aðra taktík, styrkti Breta fjárhagslega, sendi þeim hergögn og beitti sér á sama hátt gegn Japönum, þar til þeir bitu til baka með Pearl Harbor. Sagan dæmdi Roosevelt í rétti, enda vann hann stríðið sitt. Hvað ætli hún geri við Bush?
![]() |
Bandaríkjaher heldur áfram loftárásum á Sómalíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2007 | 10:03
Flugfloti Landhelgisgæslunnar stækkar
Þau stóru tímamót gerðust í gær, að Landhelgisgæslan fékk fjórðu þyrluna sína til landsins. Það er mikið öryggi fyrir landsmenn að LHG skuli nú ráða yfir fjórum þyrlum, tveimur stórum og tveimur litlum. Þetta mun líka þýða að öllu jöfnu að hægt verði að ræsa út tvær þyrlur í einu með litlum fyrirvara.
Ég mun hins vegar ekki vera sá fyrsti til þess að segja að þetta er of lítið og of seint. Gæslan þyrfti að vera öflugri. Hún þarf ný skip (ekki bara þetta eina sem er verið að smíða) og helst nokkrar þyrlur í viðbót.
Nú er borðleggjandi, að einhverntíman á næsta áratug verður flugeldasala til einstaklinga bönnuð. Þetta mun kippa fótunum undan Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, sem hefur af óeigingirni séð um leit og björgun á Íslandi í um 80 ár. Hvernig væri að færa þau verkefni undir Landhelgisgæsluna (a.m.k. sjópartinn), og taka björgunarskip og báta sem SL hefur í kringum landið undir LHG?
Með þessu myndi rekstur bátanna verða tryggður (miðað við að fjárframlög til LHG yrðu raunsæ) og bátakostur LHG myndi verða stærri, dreifðari og fjölbreyttari til að takast á við öll verkefni stofnunarinnar, ekki bara leit og björgun. Einnig myndi þetta gefa aðgang að þjálfuðum og góðum mannskap um allt land til að manna bátana.
Umfang leitar og björgunar á landi eftir að flugeldasalan hættir verður klárlega að minnka frá því sem nú er, en með sterkum þyrluflota LHG ætti að vera hægt að hafa litlar sveitir víðsvegar um landið sem gætu síðan fengið liðsstyrk þegar þörf krefði.
Samstarf SL og LHG er þegar hafið að einhverju leyti, því að það þekkist núorðið að þyrlur LHG fari með björgunarmenn SL frá Reykjavík í útköll sem krefjast sérhæfingar og hraða, t.d. köfunarútköll og sérhæfð fjallabjörgunarútköll. Þetta mætti stórauka og jafnvel hafa litla atvinnubjörgunarsveit á höfuðborgarsvæðinu sem hægt væri að beita um allt land, ef þörf krefði, björgunarsveitum á viðkomandi stöðum til aðstoðar. Landbjörgunarsveitirnar á hverjum stað gætu verið hluti af slökkvi- eða lögregluliðum á hverjum stað - ef sjálfboðaliðaformið sem er í dag helst ekki. Æskilegast væri þó auðvitað að hafa sama mannskap í þessu og í dag, enda er það að virka vel.
![]() |
Fjórða þyrla Landhelgisgæslunnar komin til landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)