Flugfloti Landhelgisgæslunnar stækkar

Þau stóru tímamót gerðust í gær, að Landhelgisgæslan fékk fjórðu þyrluna sína til landsins.  Það er mikið öryggi fyrir landsmenn að LHG skuli nú ráða yfir fjórum þyrlum, tveimur stórum og tveimur litlum.  Þetta mun líka þýða að öllu jöfnu að hægt verði að ræsa út tvær þyrlur í einu með litlum fyrirvara.

Ég mun hins vegar ekki vera sá fyrsti til þess að segja að þetta er of lítið og of seint.  Gæslan þyrfti að vera öflugri.  Hún þarf ný skip (ekki bara þetta eina sem er verið að smíða) og helst nokkrar þyrlur í viðbót.

Nú er borðleggjandi, að einhverntíman á næsta áratug verður flugeldasala til einstaklinga bönnuð.  Þetta mun kippa fótunum undan Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, sem hefur af óeigingirni séð um leit og björgun á Íslandi í um 80 ár.  Hvernig væri að færa þau verkefni undir Landhelgisgæsluna (a.m.k. sjópartinn), og taka björgunarskip og báta sem SL hefur í kringum landið undir LHG?

Með þessu myndi rekstur bátanna verða tryggður (miðað við að fjárframlög til LHG yrðu raunsæ) og bátakostur LHG myndi verða stærri, dreifðari og fjölbreyttari til að takast á við öll verkefni stofnunarinnar, ekki bara leit og björgun.  Einnig myndi þetta gefa aðgang að þjálfuðum og góðum mannskap um allt land til að manna bátana.

Umfang leitar og björgunar á landi eftir að flugeldasalan hættir verður klárlega að minnka frá því sem nú er, en með sterkum þyrluflota LHG ætti að vera hægt að hafa litlar sveitir víðsvegar um landið sem gætu síðan fengið liðsstyrk þegar þörf krefði.

Samstarf SL og LHG er þegar hafið að einhverju leyti, því að það þekkist núorðið að þyrlur LHG fari með björgunarmenn SL frá Reykjavík í útköll sem krefjast sérhæfingar og hraða, t.d. köfunarútköll og sérhæfð fjallabjörgunarútköll.  Þetta mætti stórauka og jafnvel hafa litla atvinnubjörgunarsveit á höfuðborgarsvæðinu sem hægt væri að beita um allt land, ef þörf krefði, björgunarsveitum á viðkomandi stöðum til aðstoðar.  Landbjörgunarsveitirnar á hverjum stað gætu verið hluti af slökkvi- eða lögregluliðum á hverjum stað - ef sjálfboðaliðaformið sem er í dag helst ekki.  Æskilegast væri þó auðvitað að hafa sama mannskap í þessu og í dag, enda er það að virka vel.


mbl.is Fjórða þyrla Landhelgisgæslunnar komin til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband