24.1.2007 | 09:33
Afleiðingarnar ef Bandaríkin fara frá Írak
Bush Bandaríkjaforseti hélt í nótt ræðu þar sem hann kallaði eftir "breiðari samstöðu meðal Bandaríkjanna gagnvart Írakshernaðaráætlun hans". Bush varar við afleiðingum ósigurs í Írak. Ætli hann hafi verið að glugga í gamlar ræður úr Víetnamstríðinu, um hvað myndi gerast ef Víetnam færi undir stjórn kommúnista?
Hann ætti kannski að skoða sögubækur og skoða hvað gerðist í raun og veru þegar Víetnam fór undir stjórn kommúnista. Ekki neitt.
Hitt er, að vafalaust yrði ósigur í Írak óþægilegur fyrir flesta. Í fyrsta lagi myndi borgarastyrjöldin fara í alvöru stríð. Í öðru lagi myndu Kúrdar trúlega stofna eigið ríki, Kúrdistan, eins og þeir hafa lengi viljað. Ætli mismunandi fylkingar múslima myndu ekki murka lífið úr hvor öðrum, svo og kristnum á svæðinu. Geri ráð fyrir að annað ríkið yrði leppríki Írans, en hitt væri óstöðug súpa milli þess og Kúrdistan.
Kúrdistan myndi trúlega styrkja aðskilnaðarsinna Kúrda í Tyrklandi, með það fyrir augum að hluti Tyrklands myndi fara undir Kúrdistan. Vandræðalegt fyrir Bandaríkjamenn, sem undanfarinn áratug hafa hjálpað Tyrkjum að halda Kúrdunum niðri þeirra megin við landamærin í skiptum fyrir aðstöðu til að fljúga inn í Írak og vernda Kúrdana þar fyrir vonda, vonda Saddam...
Það sem þetta strandar allt á er sú staðreynd að síðan í lok 8. áratugar síðustu aldar hefur Saddam haldið þessu öllu saman á hörkunni. Bandaríkjamenn hafa yfirleitt gert sér grein fyrir því og ekki viljað róta of mikið í súpunni. Ætli það sé ekki þess vegna sem Bush eldri stoppaði árið 1992? Sonur hans hefði kannski betur fengið ráð hjá þeim gamla.
Bush kallar eftir samstöðu varðandi hernaðarátökin í Írak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.